Löggjafinn ræður öllu!

Ég sit hér heima um­vaf­in kær­leika og ást. Ísskáp­ur­inn full­ur af kræs­ing­um sem ég út­bjó í til­efni jól­anna. En hug­ur minn er all­ur hjá þeim sem eiga um sárt að binda og hvorki njóta alls­nægta né húsa­skjóls. Viðkvæm­asti þjóðfé­lags­hóp­ur­inn okk­ar sem með vit­und og vilja stjórn­valda er haldið í fá­tækt og er bugaður af van­mætti og van­líðan. Þetta er fólkið okk­ar sem er á biðlista eft­ir þjón­ustu sál­fræðinga og geðlækna sem hafa það hlut­verk að hjálpa þeim and­lega við að öðlast já­kvæðni á til­veru sem þau eru að slig­ast und­an. Stjórn­völd­um finnst eðli­legra að plástra svöðusár­in í stað þess að lyfta þeim úr fá­tækt­inni og gefa þeim kost á að taka þátt í sam­fé­lag­inu. Það er á valdi ör­fárra ein­stak­linga inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar að sveifla sleggj­unni og brjóta niður hinar ramm­gerðu viður­styggi­legu fá­tækt­ar­gildr­ur sem þúsund­ir barna og fjöl­skyldna hafa verið múraðar í.

Ég hugsa til rík­is­stjórn­ar sem kjós­end­ur treystu til að stýra land­inu okk­ar til far­sæld­ar fyr­ir alla en ekki bara suma. Ráðamanna sem hafa fót­um troðið allt það traust sem þeim var auðsýnt. Ráðamanna sem í engu spara sam­eig­in­lega fjár­muni okk­ar í stuðningi sín­um við sjálf­töku og græðgi en sýna enga samúð gagn­vart sára­fá­tæk­um og sjúk­um.

Ég hef ít­rekað lagt fram frum­vörp og þings­álykt­an­ir sem miða að því að sækja fjár­muni þangað sem nóg er af þeim fyr­ir. Sem dæmi vildi Flokk­ur fólks­ins hækka banka­skatt­inn í 0,838% sem hefði gefið um 30 millj­arða króna í rík­is­sjóð. En nei, græðgis­ma­skín­ur bank­anna þarf að vernda. Það sem hrygg­ir mig mest er að eng­inn þingmaður annarra flokka á Alþingi kærði sig um að hækka skatt­inn, þvert á móti vörðu það sum­ir með kjafti og klóm hræðslu­áróðurs og töldu það foráttu­vit­laust að hækka banka­skatt­inn svona mikið enda myndu þeir ein­ung­is senda reikn­ing­inn á viðskipta­vini sína í formi hækk­andi vaxta og þjón­ustu­gjalda.

Ef kjörn­ir full­trú­ar hafa enn ekki áttað sig á að þeir eru lög­gjaf­inn þá ættu þeir að fá sér annað að gera. Lög­gjaf­inn set­ur okk­ur öll­um regl­urn­ar og stýr­ir því al­gjör­lega hvernig við hög­um okk­ur. Líka bank­arn­ir. Þeim er í lófa lagið að setja t.d. 6% þak á vexti þeirra og koma í veg fyr­ir það hrika­lega snjóflóð græðginn­ar sem er að skella á þúsund­um heim­ila. Lög­gjaf­inn get­ur tryggt eðli­lega viðskipta­hætti bank­anna gagn­vart viðskipta­vin­un­um. Það er ekk­ert nátt­úru­lög­mál að þess­ar græðgis­vél­ar græði hátt í hundrað millj­arða á ár­inu án þess að leggja sann­gjarn­an hluta þess í rík­is­sjóð okk­ar allra.

Áfram veg­inn og gleðileg jól.

Deila