Mennska er dýrmætt leiðarljós

Stundum er talað um að mannlegur þroski sé vegferð frá því að vera mannlegur til þess að verða mennskur. Þá er vert að hafa í huga að mennska snýst ekki síst um að koma í veg fyrir þjáningar og hörmungar annarra.

Enn eitt árið að renna sitt skeið. Ég læt hugann reika, horfi um öxl og tek ykkur með.

Það má segja að við lifum nú furðutíma sem fæst okkar sáu fyrir. Ekki einu sinni í draumheimi gáfum við ósýnilegum óvini í formi kórónuveiru nokkurn einasta gaum. Að tvö ár ævinnar einkenndust af baráttunni gegn veirunni var einfaldlega fjarstæðukennt með öllu. En spakmælið segir okkur það sem segja þarf: „Enginn veit sína ævina fyrr en öll er.“

Í upphafi faraldursins stóðum við þétt saman. Við lögðum allt okkar traust á þá sem vita betur og leiðbeindu okkur eftir fremsta megni. Fólkið í landinu sneri bökum saman, sýndi óttablandna virðingu og um leið skynsemi gagnvart hinu óþekkta. Við fylktum liði og fórum í tilraunabólusetninguna sem átti að „verja okkur gegn veirunni“. Á einu ári eru sprauturnar orðnar þrjár og vafalaust fleiri á leiðinni. Stjórnvöld hneigðu sig og létu sérfræðingana um sóttvarnirnar og sérfræðistörfin. Fæstir ráðamenn þjóðarinnar þóttust vita betur. Ég endurtek, fæstir! Nú hins vegar horfumst við í augu við mestan fjölda covid-smitaðra frá upphafi. Andvaraleysi og leiði almennings hefur tekið völdin með tilheyrandi afleiðingum. Bundnar eru vonir við að ómíkron, hið nýja afbrigði veirunnar, eigi jafnvel eftir að leiða okkur út úr faraldrinum. Tíminn einn segir til um það.

Hörð barátta

Þrátt fyrir allt höldum við ótrauð áfarm. Í huga mér er auðmýkt og djúpt þakklæti til allra þeirra sem gáfu Flokki fólksins sitt dýrmæta atkvæði í síðustu alþingiskosningum. Þið gerðuð okkur óumdeilanlega að sigurvegurum kosninganna. Þið, kæru kjósendur, tókuð utan um baráttumálin okkar eins og kröfuna um 350.000 króna lágmarksframfærslu skatta- og skerðingalaust, kröfurnar um að útrýma biðlistum eftir læknishjálp, tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, verja íslensk heimili gegn okri, láta þjóðina njóta auðlinda sinna o.s.frv. Víst er að við, nýkjörnir sex þingmenn Flokks fólksins, munum berjast áfram af öllum kröftum gegn hvers kyns óréttlæti, mismunun og fátækt.

Við þykjumst ekki ætla að gera allt fyrir alla, heldur einbeitum okkur að frumskyldu okkar gagnvart þeim sem þarfnast þess mest að eiga sér öflugan málsvara á Alþingi. Við flækjum ekki málin með fagurgala fyrir kosningar og hlaupum heldur ekki frá loforðum okkar að þeim loknum.

Á síðasta kjörtímabili barðist enginn flokkur af jafn mikilli einurð fyrir auknum réttindum öryrkja, eldra fólks og fólks á lægstu laununum og Flokkur fólksins. Við lögðum fram tugi þingmála sem miða að því að bjarga almannatryggingaþegum úr fátæktargildrunni sem stjórnvöld hafa búið þeim. Og strax nú á nýhöfnu kjörtímabili höfum við lagt fram enn fleiri slík mál. Það er sérstakt fagnaðarefni að baráttumál okkar fyrir jólabónusi handa öryrkjum, skatta- og skerðingalaust, var samþykkt á Alþingi rétt fyrir jólin, um leið og það er virkilega sárt að tillögu okkar um sambærilegan jólabónus fyrir þrjár neðstu tekjutíundir eldra fólks skyldi hafnað. Mér er með öllu fyrirmunað að skilja slíka mismunun milli einstaklinga sem allir eiga virkilega bágt og ná engan veginn endum saman. Í mínum huga er spurningin sú hvort það sé sérstakt markmið ríkisstjórnarinnar að troða á eldra fólki og neita því um réttlætið sem það hefur ekki tíma til að bíða eftir. Eftir heilt kjörtímabil á þingi get ég ekki komist að neinni annarri niðurstöðu.

Lögmál mennsku eða frumskógar

Okkur er meðfætt að vera mannleg með kostum þess og göllum á borð við sjálfsvitund, greind, græðgi og grimmd. En það er meðvituð ákvörðun að vera mennsk. Að vera mennsk snýst um það hvernig við hegðum okkur sem einstaklingar. Það snýst um eiginleika á borð við samkennd, umhyggju fyrir öðrum og baráttu fyrir réttlæti og sannleika.

Hæfileikinn til að setja sig í spor annarra, finna til samkenndar með þeim og hjálpa þeim sem sannanlega eru hjálpar þurfi er óendanlega mikilvægur þáttur mennskunnar. Þannig tekur mennskan til þess hvort við virðum rétt allra til að lifa öruggu og mannsæmandi lífi, til að hafa þak yfir höfuðið og hafa í sig og á með sómasamlegum hætti. Krafan um að börn upplifi ekki mismunun á grundvelli efnahags er sjálfsögð og réttlát á mælikvarða mennskunnar. Sama gildir um að fólk fái að eldast með reisn og að allir eigi kost á góðri heilbrigðisþjónustu.

Kjarni vandans í íslenskum stjórnmálum er að hluta til áberandi virðingarleysi stjórnvalda gagnvart aðstæðum fólks, sérstaklega þeirra sem eiga bágt. Sumum stjórnmálamönnum virðist hreinlega fyrirmunað að setja sig í spor annarra. Þeim er tamt að líta bara í eina átt og snúa blinda auganu að þeim sem virkilega þurfa á aðstoð að halda. Fólki með vonir og þrár um betra og áhyggjulausara líf. Vonir um að þurfa ekki lengur að bíða eftir réttlætinu. Að vera ekki líkt við lífvana súlurit eða vísvitandi villandi excel-skjöl. Það er forgangsverkefni að koma þessu fólki til hjálpar og hrífa það úr köldum faðmi ómanneskjulegs og skilningsvana kerfis.

Stöndum vaktina

Stundum er talað um að mannlegur þroski sé vegferð frá því að vera mannlegur til þess að verða mennskur. Þá er vert að hafa í huga að mennska snýst ekki síst um að koma í veg fyrir þjáningar og hörmungar annarra. Sú hlið mennskunnar á jafnt við um það hvernig komið er fram við menn og dýr.

Bann við ómannúðlegri meðferð á borð við pyndingar er alþjóðlega viðurkennt sem ófrávíkjanleg og algild lög. Bannið er talið vera meðal æðstu laga alþjóðasamfélagsins, það varðar því alla og gildir alls staðar á jörðinni. Pyndingar eru einfaldlega aldrei réttlætanlegar, hvort sem menn eða aðrar lifandi verur eru þolendur ofbeldisins.

Það er ekki að ástæðulausu sem blóðmerahald er fordæmt víða um heim, m.a. af Evrópuþinginu, enda flokkast það undir ómannúðlega meðferð á dýrum. Við getum ekki lokað augunum fyrir slíkri fordæmingu. Blóðmerahald á vegum Ísteka hér á landi er þeim mun fjarstæðukenndara þar sem við Íslendingar leggjum mikið upp úr ímynd landsins og góðu orðspori. Íslenski hesturinn er elskaður og dáður um allan heim og Íslandsstofa hefur varið miklum fjármunum í kynningu hans með frábærum árangri. Tæplega 10% erlendra ferðamanna koma hingað gagngert í þeim tilgangi að kynnast íslenska hestinum og hestamannaleigur velta margfalt hærri fjárhæðum en Ísteka. Augljóst er að við sem þjóð fórnum svo miklu meiri hagsmunum fyrir minni ef þessi starfsemi verður ekki stöðvuð strax.

Flokkur fólksins leggur nú í annað sinn fram frumvarp sitt á Alþingi um bann við blóðmerahaldi. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að bændum, sem hafa haft tekjur af starfseminni, verði bætt fjárhagstjónið sem þeir verða fyrir.

Það er löggjafans að stöðva þessa óverjandi illu meðferð á fylfullum hryssum. Hér er um augljóst brot á dýravelferð að ræða og okkur sem þjóð til ævarandi minnkunar. Ég trúi á manngæskuna og að við flest látum okkur annt um velferð dýra. Þannig muni árið 2022 verða ár mannúðar þar sem alþingismenn stöðva ómannúðlega meðferð á fylfullum hryssum með algjöru banni á blóðmerahaldi.

Fyrir hönd Flokks fólksins þakka ég kjósendum okkar ómetanlegan stuðning á árinu sem er að líða og óska landsmönnum öllum árs og friðar.

Áfram veginn til góðra verka!

– Inga Sæland, formaður og þingmaður Flokks fólksins

Deila