Menntakerfið er ein af grunnundirstöðum samfélagsins og þar spilar námslánakerfið lykilhlutverk. Námslán hafa gert fjölda fólks kleift að öðlast menntun, sem ella hefði þurft að hverfa frá námi og halda út á vinnumarkað. Óumdeilt er að aukinn aðgangur að menntun án tillits til efnahags dregur úr stéttaskiptingu og eykur verðmætasköpun í samfélaginu, en námslánakerfið er langt frá því að vera fullkomið. Námslán eru háð ýmsum skilyrðum og lítið þarf að fara úrskeiðis til þess að námsmenn missi bróðurpart framfærslu sinnar.
Ég tel eina helstu hindrun í vegi námsmanna, sem þurfa að treysta á framfærslulán frá Menntasjóði, vera reglur um skerðingar á framfærslu vegna tekna. Hafi námsmaður tekjur umfram frítekjumörk skerðist framfærsla frá Menntasjóði verulega. Þetta er sérstaklega íþyngjandi í ljósi þess að framfærsla Menntasjóðs dugar almennt ekki ein og sér til að greiða fyrir fæði, klæði og húsnæði. Einhleypur nemandi sem býr á stúdentagörðum getur fengið framfærslulán að fjárhæð 237.220 kr. á mánuði miðað við framfærslu í níu mánuði á ári en þarf að greiða 128.945 kr. í leigu fyrir stúdíóíbúð hjá stúdentagörðum. Mismunurinn, 108.275 kr., dugar skammt til framfærslu. Frítekjumark framfærslulána Menntasjóðs er aðeins 1.622.000 kr. á ári. Ef námsmaður er í fullri vinnu í þrjá mánuði á hverju sumri með 407.000 kr. í mánaðarlaun[1] þá er svigrúmið til frekari tekjuöflunar yfir námsveturinn lítið sem ekkert, eða tæpar 45.000 kr. á mánuði uns tekjur byrja að hafa áhrif á framfærslu frá Menntasjóði. Þær launatekjur sem námsmaður hefur umfram frítekjumarkið skila sáralitlu, enda skerða þær framfærslulán um 45% auk þess sem greiða þarf af þeim tekjuskatt eftir að persónuafsláttur er fullnýttur.
Það er erfitt að skilja hver rökin eru fyrir því að skerða svo verulega námslán vegna tekna námsmanna. Varla er það svo að atvinnuþátttaka námsmanna sé samfélaginu skaðleg. Þvert á móti skapa þeir verðmæti með vinnu sinni. Ef gengið er út frá því að menntun sé samfélagslega arðbær fjárfesting þá á að sjá til þess að menntun sé öllum aðgengileg án tillits til efnahags. Svo verulegar tekjuskerðingar, þegar grunnframfærslan er eins lítil og raun ber vitni, fela í sér mismunun á grundvelli efnahags. Nám á að vera öllum aðgengilegt en ekki aðeins þeim sem geta treyst á fjárhagslegan stuðning frá fjölskyldu sinni. Ef ekki er gripið í taumana er hættan sú að menntun verði brátt aðeins fyrir börn hinna efnameiri.
Þá er það mikilvægur þáttur í menntun margra að læra af vinnu. Nemendur sækja gjarnan um störf sem tengjast námi þeirra í þeim tilgangi að auka við reynslu og þekkingu á viðkomandi sviði. Samfélagið á að taka slíku frumkvæði fagnandi. Eins og kerfið er uppbyggt í dag er lítill fjárhagslegur ávinningur af starfsnámi. Afleiðingarnar eru þær að fyrirtæki og stofnanir hafa tekið upp á því að bjóða námsmönnum launalaust starfsnám. Námsmönnum er því ekki aðeins ætlað að lifa undir fátæktarmörkum heldur eiga þeir einnig að vinna samhliða námi launalaust. Þetta er hættuleg þróun. Það á að verðlauna námsmenn fyrir dugnað, í stað þess að refsa þeim fyrir. Það er nauðsynlegt að draga úr tekjuskerðingum og veita nemendum færi á að spreyta sig á vinnumarkaði og leyfa þeim að njóta góðs af.
Það mun ekki hafa neikvæð áhrif á ríkissjóð að draga úr tekjuskerðingum námsmanna. Framfærslulán til nemenda eru fjárfesting sem skilar miklum samfélagslegum ábata. Þau eru á endanum greidd til baka og verðmætasköpun í samfélaginu verður meiri eftir því sem menntun eykst.