Ofbeldi

Nú eru jafnréttisdagar og þá standa Rannsóknasetur í fötlunarfræðum, Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtökin Þroskahjálp fyrir málstofu um ofbeldi gegn fötluðum konum.

Í fundarboði kemur fram að alþjóðlegar rannsóknir sýni að fatlaðar konur eru mun líklegri en aðrar konur til að vera beittar ofbeldi.

Þrátt fyrir það, og þrátt fyrir að um sé að ræða alvarleg mannréttindabrot, er ofbeldi gegn fötluðum konum enn falið og ósýnilegt og sjaldan brugðist við því af hálfu yfirvalda.

Rannsóknir sýna að ofbeldi gegn konum og börnum hefur aukist í Covid-19 faraldrinum, einnig á Íslandi. Hér á landi hafa stjórnvöld brugðist við þessu með því að nýta nýja tækni við að þróa 112 vefgátt til vitundarvakningar og sem tæki til að takast á við og hindra ofbeldið.

Þá kemur fram í greinargerð ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn fötluðum á Íslandi að skelfilegt birtingarform ofbeldis grasserar gagnvart fötluðu fólki og þar segir m.a. orðrétt:

„Íslenskar sem erlendar rannsóknir leiða í ljós að fatlað fólk er í sérstökum áhættuhópi sem þolendur ofbeldis. Kannanir sýna einnig að meiri líkur eru á að fatlað fólk verði fyrir ofbeldi en þeir sem ófatlaðir teljast. Einkum eru ungar konur sem glíma við fötlun líklegri til að verða fyrir kynferðisbroti.“

Það er okkur til háborinnar skammar að aftur og aftur kemur upp umræða um gróft andlegt og líkamlegt ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og börnum. Er ekki kominn tími til að taka þessi mál föstum tökum og sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að ofbeldinu linni?

Uppgjör á ofbeldi fortíðar gagnvart fötluðum hefur staðið yfir síðustu ár og nú verðum við að sjá til þess að í framtíðinni þurfi ekki enn og aftur að gera upp ofbeldi á fötluðum einstaklingum.

Höfundar erlendrar rannsóknar segja börn sem glíma við þroskahömlun 4,6 sinnum líklegri en ófötluð börn til að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Ofbeldi gegn fötluðum getur þannig tekið á sig margar birtingarmyndir.

Ein birtingarmyndin er sú að Alþingi hefur ekki lögfest samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks.

Með samhentu átaki verðum við að koma í veg fyrir ofbeldið, með því að virkja allt það góða fólk sem nú vinnur fyrir og með fötluðum einstaklingum og börnum.

Í alþjóðlegri skýrslu segir að fötlun sé eðlilegur hluti mannlegs lífs, að næstum allir verði fyrir tímabundinni eða varanlegri fötlun á lífsleiðinni. Fatlað fólk á Íslandi á rétt á því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og það strax.

Hvar er lögfestingarfrumvarpið frá ríkisstjórninni sem átti að vera komið í umræðuna á Alþingi? Er það ekki enn ein birtingarmynd ofbeldis gagnvart fötluðu fólki að leggja það ekki fram? Stöðvum ofbeldið strax.

Guðmundur Ingi Kristinsson alþingismaður og varaformaður flokks fólksins

Deila