Óréttlæti og lögleysa

Í október 2016 samþykkti Alþingi lög um breytingar á almannatryggingakerfinu en vegna mistaka við gerð lagafrumvarpsins var afnumin heimild til skerðinga ellilífeyris vegna lífeyristekna. Engu að síður hélt Tryggingastofnun ríkisins áfram að skerða ellilífeyri vegna lífeyrissparnaðar. Þegar ríkisstjórnin áttaði sig á þessum „mistökum“ hefði hún átt að biðja eldri borgara afsökunar og endurgreiða þeim þann pening sem var ólöglega tekinn af þeim. En það gerði hún ekki.

Í stað þess að fylgja eigin lögum, voru ný lög sett, til að réttlæta þessar skerðingar afturvirkt. Maður þarf ekki að vera lærður lögfræðingur til þess að átta sig á því að það er vafasamt þegar sett eru afturvirk lög sem eiga að réttlæta ólöglega upptöku eigna. Afgreiðsla ríkisstjórnarinnar á þessu máli er aðeins eitt af mörgum dæmum um það hvernig aldraðir hafa þurft að búa við óréttlæti og lögleysu.

Flokkur fólksins fór í mál gegn ríkinu fyrir hönd ellilífeyrisþega og hófst þá barátta sem tók nokkur ár. Ríkisstjórnin barðist með kjafti og klóm gegn þessu réttlætismáli. En réttlætið sigraði að lokum og þann 31. maí 2019 staðfesti Landsréttur að ríkið hefði brotið gegn eldri borgurum með því að skerða greiðslur til þeirra með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf og sá dómur var staðfestur af Hæstarétti 9. júlí 2019. Niðurstaðan í þessu máli varð til þess að ríkið greiddi 32.000 eldri borgurum um sjö milljarða króna með vöxtum.

Þessi sigur markaði sín spor í umræðum á Alþingi. Í kjölfarið þurfti ríkisstjórnin að taka tillit til þessara auknu fjárútláta ríkissjóðs í fjárlögum. Formaður Flokks fólksins gaf félags- og barnamálaráðherra tækifæri til þess að biðja eldri borgara afsökunar á þessu lögbroti. Því miður voru viðbrögð hans langt frá afsökunarbeiðni, hann valdi þess í stað að gagnrýna niðurstöðuna og sagði að hann hefði gjarnan viljað nota þessa peninga í einhver önnur og verðugri verkefni. Peninga sem ríkið aflaði með ólögmætum skerðingum á greiðslum til ellilífeyrisþega

Deila