Síðastliðinn þriðjudag tók ég sem fulltrúi Flokks fólksins þátt í málþingi Kjarahóps Öryrkjabandalags Íslands sem bar titilinn „Heimsmet í skerðingum“. Þar kynnti Stefán Ólafsson, prófessor og sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi, skýrsluna „Kjör lífeyrisþega – Samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða í mótun tekna“ sem hann og Stefán Andri Stefánsson hafa unnið um kjör lífeyrisþega.
Flokkur fólksins hefur allt frá stofnun hans fyrir fimm árum skorið upp herör gegn skerðingum. Í stuttu máli sagt þá staðfestir skýrslan það sem við höfum haldið fram allt þetta kjörtímabil og gott betur, bæði í ræðum á þingi og með greinaskrifum. Nú þegar í þessari viku hef ég farið með efni skýrslunnar í munnlegum fyrirspurnum til forsætisráðherra og félagsmálaráðherra.
Þar hef ég m.a. bent á að af hverjum 50.000 kr. viðbótartekjum frá lífeyrissjóði fá lífeyrisþegar að jafnaði um 13.370 kr. í sinn hlut en ríkið fær í skatta og skerðingar samanlagt um 36.600 kr. Almennt hefur skattbyrði lífeyrisþega, ekki síst lágtekjulífeyrisþega, aukist stórlega á tímabilinu 1990-1996, en þá var óskertur lífeyrir almannatrygginga skattfrjáls. Sambærileg upphæð í dag ber um 50.000 kr. tekjuskatt á mánuði. Sú skattbyrði ásamt lágu lífeyrishámarki hjá TR veldur því að óskertur lífeyrir almannatrygginga dugar ekki fyrir lágmarksframfærslukostnaði einhleyps lífeyrisþega á höfuðborgarsvæðinu.
Skýrsluhöfundar leggja fram þá umbótatillögu til að draga úr lágtekjuvanda meðal lífeyrisþega og bæta virkni lífeyriskerfisins að hækka frítekjumark gagnvart greiðslum frá lífeyrissjóðum í 100.000 kr. á mánuði í stað 25.000 kr. Flokkur fólksins hefur einmitt lagt fram frumvarp þessa efnis en ekkert kemur frá ríkisstjórninni. Þá ætti uppreiknað frítekjumark atvinnutekna að vera 250.000 kr. í dag, en ekki bara 109.000 kr.
En vandinn snýst ekki bara um skerðingar á lífeyri vegna tekna. Við bætast keðjuverkandi skerðingar ofan á hinar fyrstu. Þær eru í barnabótakerfinu, í leigubótakerfinu, í kerfinu um sérstakar húsaleigubætur og í félagsbótakerfinu.
Í þessu makalausa skerðingakerfi er fólk hiklaust sent í fátækt við hungurmörk. Dæmi eru um 80-100% skerðingar á sumri framfærslu sem fólk á að reyna að lifa af. Skerðingarnar bæta gráu ofan á svart og eru óviðunandi í ljósi þess að óskertur lífeyrir almannatrygginga getur engan veginn staðið undir framfærslukostnaði. Það vantar 70.000 kr. og allt upp í 140.000 kr. ef þeir verst settu, sem eru með rúmlega 200.000 á mánuði eftir skatta, eru teknir inn í.
Allt þetta og meira til er ekkert annað en ávísun á óviðunandi sárafátækt í einu ríkasta landi heims.
Guðmundur Ingi Kirstinsson