Óviðunandi heimsmet í skerðingum

Síðastliðinn þriðju­dag tók ég sem full­trúi Flokks fólks­ins þátt í málþingi Kjara­hóps Öryrkja­banda­lags Íslands sem bar titil­inn „Heims­met í skerðing­um“. Þar kynnti Stefán Ólafs­son, pró­fess­or og sér­fræðing­ur hjá Efl­ingu – stétt­ar­fé­lagi, skýrsl­una „Kjör líf­eyr­isþega – Sam­spil al­manna­trygg­inga og líf­eyr­is­sjóða í mót­un tekna“ sem hann og Stefán Andri Stef­áns­son hafa unnið um kjör líf­eyr­isþega.

Flokk­ur fólks­ins hef­ur allt frá stofn­un hans fyr­ir fimm árum skorið upp her­ör gegn skerðing­um. Í stuttu máli sagt þá staðfest­ir skýrsl­an það sem við höf­um haldið fram allt þetta kjör­tíma­bil og gott bet­ur, bæði í ræðum á þingi og með greina­skrif­um. Nú þegar í þess­ari viku hef ég farið með efni skýrsl­unn­ar í munn­leg­um fyr­ir­spurn­um til for­sæt­is­ráðherra og fé­lags­málaráðherra.

Þar hef ég m.a. bent á að af hverj­um 50.000 kr. viðbót­ar­tekj­um frá líf­eyr­is­sjóði fá líf­eyr­isþegar að jafnaði um 13.370 kr. í sinn hlut en ríkið fær í skatta og skerðing­ar sam­an­lagt um 36.600 kr. Al­mennt hef­ur skatt­byrði líf­eyr­isþega, ekki síst lág­tekju­líf­eyr­isþega, auk­ist stór­lega á tíma­bil­inu 1990-1996, en þá var óskert­ur líf­eyr­ir al­manna­trygg­inga skatt­frjáls. Sam­bæri­leg upp­hæð í dag ber um 50.000 kr. tekju­skatt á mánuði. Sú skatt­byrði ásamt lágu líf­eyr­is­há­marki hjá TR veld­ur því að óskert­ur líf­eyr­ir al­manna­trygg­inga dug­ar ekki fyr­ir lág­marks­fram­færslu­kostnaði ein­hleyps líf­eyr­isþega á höfuðborg­ar­svæðinu.

Skýrslu­höf­und­ar leggja fram þá um­bóta­til­lögu til að draga úr lág­tekju­vanda meðal líf­eyr­isþega og bæta virkni líf­eyri­s­kerf­is­ins að hækka frí­tekju­mark gagn­vart greiðslum frá líf­eyr­is­sjóðum í 100.000 kr. á mánuði í stað 25.000 kr. Flokk­ur fólks­ins hef­ur ein­mitt lagt fram frum­varp þessa efn­is en ekk­ert kem­ur frá rík­is­stjórn­inni. Þá ætti upp­reiknað frí­tekju­mark at­vinnu­tekna að vera 250.000 kr. í dag, en ekki bara 109.000 kr.

En vand­inn snýst ekki bara um skerðing­ar á líf­eyri vegna tekna. Við bæt­ast keðju­verk­andi skerðing­ar ofan á hinar fyrstu. Þær eru í barna­bóta­kerf­inu, í leigu­bóta­kerf­inu, í kerf­inu um sér­stak­ar húsa­leigu­bæt­ur og í fé­lags­bóta­kerf­inu.

Í þessu maka­lausa skerðinga­kerfi er fólk hik­laust sent í fá­tækt við hung­ur­mörk. Dæmi eru um 80-100% skerðing­ar á sumri fram­færslu sem fólk á að reyna að lifa af. Skerðing­arn­ar bæta gráu ofan á svart og eru óviðun­andi í ljósi þess að óskert­ur líf­eyr­ir al­manna­trygg­inga get­ur eng­an veg­inn staðið und­ir fram­færslu­kostnaði. Það vant­ar 70.000 kr. og allt upp í 140.000 kr. ef þeir verst settu, sem eru með rúm­lega 200.000 á mánuði eft­ir skatta, eru tekn­ir inn í.

Allt þetta og meira til er ekk­ert annað en ávís­un á óviðun­andi sára­fá­tækt í einu rík­asta landi heims.

Guðmundur Ingi Kirstinsson

Deila