Réttlátara samfélag fyrir alla

 

Það vita allir sem vita vilja að Flokkur fólksins var stofnaður til að berjast gegn þjóðarskömminni fátækt.  Aldrei ruglum við saman meðaltölum við raunveruleika þeirra sem eru að berjast í bökkum og ná ekki endum saman frá mánuði til mánaðar.  Krafa Flokks fólksins hefur ætið verið „ Hættið að skattleggja fátækt“ Það breytir engu hversu fallegt OECD exel skjalið lítur út sem fjármálaráðherra er svo tíðrætt um og segir að við höfum það best í heimi. Staðreyndin segir okkur að þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga eru skattlegðir til sárrar fátæktar.

Frá því Flokkur fólksins var stofnaður árið 2016 hafa helstu baráttumál hans verið að lágmarkslaun væru ekki undir 300.000 kr. á mánuði, skatta og skerðingalaust og að húsnæðisliðurinn yrði tekin út úr vísitölunni. Hugsið ykkur bara að húsnæðisliðurinn sem látinn er fylgja með í útreikningum neysluvísitölunnar frá mánuði til mánaðar, hefur kostað 172,5 milljarða króna í hækkuðum skuldum íslenskra heimila eftir hrun.

Eldfimt ástand

Það hefur víst ekki farið framhjá neinum að það stefnir í gríðarleg átök á vinnumarkaðnum.  Á hvaða vegferð er ríkisstjórn sem lætur ákall samborgara sinna sem vind um eyru þjóta, þegar hún hefur það í hendi sér að leiðrétta það misrétti og þá vinnuþrælkun sem allt of margir búa við. Hún getur lægt þá stigvaxandi ólgu réttlátrar reið sem nú vex upp í samfélginu og verður stærri með hverjum deginum sem líður.

Við biðum öll með öndina í hálsinum eftir útspili ríkisstjórnarinnar sem vonir stóðu til að myndi liðka verulega til við samningaborðið.

Á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu þann 19. febrúar sl. kynnti frjármálaráðherra svo tillögur ríkisstjórnarinnar að breytingum á tekjuskattskerfinu. Fram kom að samkvæmt hinu nýja kerfi yrði skatthlutfall fyrsta þreps 32,94 prósent. Persónuafsláttur yrði 56.477 krónur á mánuði og þar með skattleysismörk 159.174 krónur á mánuði.

Kaldhæðni

Markmið ríkisstjornarinnar er nú að hefja skattleggningu fátæktar þegar tekjur hafa náð 159.174 kr. á mánuði.  Ekkert útspil frá ríkisstjórninni í þá átt að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni. Ekkert um að taka skrefið til móts við okkar minnstu bræður og systur og hætta að skattleggja tekjur undir 300.000 krónum. Enn og aftur eru skilaboðin skýr. Bognu bökin mega bogna meira.

Einn ágætur Sjálfsæðismaður tjáði mér á dögunum að menn héldu mannlegri reisn með því að taka þátt í samneyslunni og borga skatta. Ég segi á móti hvaða mannlega reisn felst í því að geta ekki brauðfætt fjölskylduna sína í lok mánaðarins. Hvaða mannlega reisn felst í vonleysinu sem fylgir því að vinna eins og þræll myrkranna á milli og ná aldrei endum saman þrátt fyrir að horfa í hverja einustu krónu.

Nú er það á valdi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að koma í veg fyrir yfirvofandi verkföll með ófyrirséðum afleiðingum fyrir allt þjóðarbúið. Það er á hennar valdi að við getum hér öll lifað með reisn.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila