Róttækur velferðarpakki Flokks fólksins

Ríkisstjórnin ætlar ekkert að gera til að rjúfa fátæktina sem stjórnvöld undanfarinna áratuga hafa viðhaldið grímulaust gegn þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Síðustu ríkisstjórnum hefur gróflega mistekist að byggja upp skilvirkt, sanngjarnt velferðarkerfi.

Stjórnvöld hanga á handónýtu, mannvondu kerfi, sem fáir eða enginn skilur. Veikt, gamalt fólk fær ekki aðgang að hjúkrunarheimilum, stjórnvöld skattleggja fátækt grimmt og skerða kinnroðalaust þau sem veikast standa, tíu prósent barna líða skort, fólk skortir fæði, klæði og húsnæði. Á sama tíma státa þessi sömu yfirvöld af því að Ísland búi við gengdarlausa hagsæld og ríkidæmi. Þrátt fyrir þunga undiröldu og ósk um réttlæti í samfélaginu kemur til valda, ríkisstjórn eftir ríkisstjórn og ver þetta brogaða mannvonsku kerfi. Þau sem ráða ferð hafa hvorki dug né áhuga á að koma með raunverulegar breytingar til batnaðar fyrir þá sem mest þurfa á að halda. Þau hvorki ætla né vilja útrýma fátækt. Þetta er óþolandi ástand og nú er mál að linni.

Flokkur fólksins er eini stjórnmálaflokkurinn á Alþingi sem berst af afli og hugsjón gegn fátækt. Við höfum lagt inn á Alþingi fimm forgangsmál flokksins á komandi þingvetri:  

  1. Skattleysismörk hækki svo að þeir sem lægstu launin hafa geti lifað mannsæmandi lífi. Við viljum hækka skattleysismörk upp í 350.000 krónur á mánuði og taka upp fallandi persónuafslátt. Okkar útfærsla skilar lágtekjufólki raunverulegri tekjuaukningu.
  2. Bundið verði í lög að örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi 300.000 króna lágmarksframfærslu, skatta- og skerðingalaust.
  3. Örorkulífeyrisþegum verði heimilt að afla sér atvinnutekna í tvö ár án þess að nokkrar bætur skerðist. Þetta yrði risastór hvati til að sá hluti þessa fólks sem hefur starfsgetu geti komist aftur inn á vinnumarkaðinn, þeim og þjóðinni til heilla.
  4. Ríki og sveitarfélögum verði skylt með lögum að útvega öldruðum sem hafa gengist undir færni- og heilsumat, dvalar- og hjúkrunarrými eigi síðar en 60 dögum eftir að mat sýni að viðkomandi eigi rétt á slíku rými. Makar þeirra sem fá vistun á öldrunarstofnunum fái sjálfkrafa að dvelja með hinum vistuðu óski þau slíks.
  5. Ofangreindar tillögur þarf að fjármagna. Flokkur fólksins leggur nú fram tillögu þess efnis að staðgreiðsla skatta fari fram við innborgun í lífeyrissjóði en ekki við útgreiðslu. Þetta myndi skila rúmum 70 milljörðum króna árlega til ríkis og sveitarfélaga. Þetta fé má nýta til að standa straum af þeim róttæka velferðarpakka sem Flokkur fólksins leggur nú til með þessum fimm forgangsmálum sínum á nýju þingi.

Kynnið ykkur þessi og önnur þingmál Flokks fólksins á vef Alþingis. Útrýmum fátækt og gerum það NÚNA !

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila