„25.000 milljónir tókst Samtökum atvinnulífsins að kreista út með krókódílatárum. Á sama tíma voru 25 milljónir að skila sér í mataraðstoð. Á sama tíma þurftu 50 manns frá að hverfa og fengu enga mataraðstoð. Á sama tíma er fólk heima eftir tíu daga í mánuðinum matarlaust og getur ekki einu sinni farið í raðir.“
Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag en hann beindi orðum sínum til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Hann benti á að aðalfundur Öryrkjabandalangsins hefði ályktað og krafist þess að ríkisstjórnin endurskoðaði afstöðu sína gagnvart lífskjörum fatlaðs og langveiks fólks og bætti kjör þeirra strax. Hann vísaði í ályktunina sem segir að skömm ríkisstjórnarinnar sé „að halda okkur í fátækt og skýla sig bak við COVID sem slæms efnahagsástands“. Í þrjú ár hefði ríkisstjórnin ákveðið að auka fátækt fatlaðs og langveiks fólks í stað þess að bæta kjör sístækkandi hóp öryrkja sem býr við sára fátækt.
Guðmundur Ingi spurði því hvort ekki væri kominn tími til að segja við þetta fólk að þeirra tími væri kominn og að þau ættu ekki að bíða lengur.
„Eða hvenær í ósköpunum er þeirra tími kominn? Hann var ekki kominn í góðærinu – og ef hann er ekki kominn núna, og ég spyr, er það virkilega metnaður þessarar ríkisstjórnar að verja þetta ástand? Að verja það að fólk eigi ekki fyrir mat? Að verja það að fólk þurfi að fara í biðraðir eftir mat? Að verja það að einhverjir séu heima og eiga kannski ekkert nema smá lýsi eða maltdós í ísskápnum? Og er ekki kominn tími til að þessir einstaklingar fái lífskjarasamninginn, þó ekki væri nema bara lífskjarasamninginn?“ spurði Guðmundur Ingi.
Sagði að framlög til málefna örorku hefðu aukist
Katrín svaraði og sagði að framlög til málefna örorku hefðu aukist úr 62 milljörðum, að raunvirði, í tæplega 80 milljarða. „Auðvitað er það að einhverju leyti vegna lýðfræðilegra breytinga en líka vegna hækkana sem hafa orðið. Þar má nefna sérstakt framlag sem Alþingi ákvað að verja til að draga úr skerðingum á örorkulífeyrisþega og þar með að koma til móts við eina af þeim kröfum sem hefur verið hvað háværust í málflutningi þeirra, eðlilega. Sömuleiðis höfum við í öllum aðgerðum okkar, allt kjörtímabilið, forgangsraðað í þágu tekjulægri hópa.“
Hún nefndi jafnframt barnabætur, breytingar á skattkerfi sem hún sagði að hefðu fyrst og fremst skilað skattalækkunum til tekjulægstu hópanna, greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu og tannlæknakostnað sem hefði ekki verið endurskoðaður síðan 2004.
„Síðan vil ég nefna það síðasta sem lýtur að öldruðum, þ.e. nýjan viðbótarstuðning til þeirra sem höllustum fæti standa í þeirra hópi. Hann byggir á mjög vandaðri vinnu sem unnin var með eldri borgurum við það að greina hverjir það væru sem stæðu verst. Það er alveg sannanlegt að sú ríkisstjórn sem hér sat 2013 til 2016 réðst í mjög stórtækar breytingar og jók mjög framlög til aldraðra á sínum tíma með lagabreytingum sem voru samþykktar árið 2016. Fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var síðan að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna, ráðast í breytingar sem varða kostnað í heilbrigðiskerfinu og núna síðast að koma með þennan félagslega viðbótarstuðning.
Eftir stendur auðvitað að ekki hefur verið gerð sú breyting á örorkulífeyriskerfinu sem hæstvirtur félags- og barnamálaráðherra lagði upp með í upphafi kjörtímabils. Ég tel mjög mikilvægt að ráðist verði í slíkar breytingar til þess einmitt að við getum mætt þeim sem höllustum fæti standa innan þess kerfis,“ sagði Katrín.
„Fólk borðar ekkert fyrir þetta“
Guðmundur Ingi steig aftur í pontu og sagði að allt það sem Katrín hefði sagt væri rétt. „En staðreyndin blasir við: Fólk borðar ekkert fyrir þetta, það er jafn svangt og fær eftir sem áður neitun í biðröð eftir mat. Það er jafn slæmt að vera heima þegar það á ekki mat í ísskápnum.“
Hann spurði því hvers vegna þetta væri eini hópurinn sem fengi ekki lífskjarasamninga. „Hvers vegna í ósköpunum er hægt að verja lífskjarasamningana með kjafti og klóm og láta Samtök atvinnulífsins fá ótakmarkaða peninga en ekki hægt að setja krónu til þessa hóps?“ spurði hann.
„Hæstvirtur forsætisráðherra talar um að minnka skerðingar. Kerfið er svo gjörsamlega arfavitlaust að við það að minnka skerðingar tapar fólk peningum, þá eru bara teknar af því húsaleigubætur eða einhver annar bótaflokkur og fólk stendur illa og jafnvel verr á eftir. Það eru mörg dæmi um það. Þess vegna segi ég: Það er kominn tími til að svara því í eitt skipti fyrir öll af hverju þessi hópur fær ekki leiðréttingu launa eins og allir aðrir. Og hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að taka utan um þennan hóp þannig að hann þurfi að lágmarki ekki að standa í biðröð eftir mat?“ spurði hann að lokum.
Mótmælir því að ríkisstjórnin hafi látið Samtök atvinnulífsins fá ótakmarkaða fjármuni
Katrín svaraði í annað sinn og sagðist vilja minna á að í fjárlagafrumvarpinu kæmi skýrt fram „að bætur almannatrygginga hækka um 3,6 prósent um áramótin sem byggist á mati á áætluðum meðaltaxtahækkunum á vinnumarkaði í heild fyrir árið 2021. Það er í samræmi við 69. grein laga um almannatryggingar þar sem kveðið er á um að þessar bætur skuli breytast árlega og taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en samkvæmt neysluvísitölu. Þetta byggir á þessu mati.“
Þá mótmælti hún því að ríkisstjórnin léti Samtök atvinnulífsins fá ótakmarkaða fjármuni og spurði hvað Guðmundur Ingi ætti við. „Telur háttvirtur þingmaður að of langt sé í því gengið að tryggja störf í þessu landi, að skapa störf í þessu landi, að greiða fyrir atvinnulífinu þannig að fólkið í landinu geti haldið áfram að sækja sér vinnu? Telur háttvirtur þingmaður of langt gengið í því? Telur háttvirtur þingmaður að þetta snúist um einhverja aðila sem starfa hjá Samtökum atvinnulífsins? Það er nefnilega ekki þannig. Þetta snýst um mat á heildarhagsmunum samfélagsins og hvernig við getum haldið áfram að skapa verðmæti í samfélaginu, eitthvað sem ég hefði trúað að allir háttvirtir þingmenn ættu að geta sammælst um, og komið okkur sameiginlega í gegnum þennan skafl.
Um það snýst þetta jú, að við höldum áfram, hvort sem það er að veiða fisk eða skapa nýja þekkingu og aukin verðmæti til útflutnings, hvort sem það snýst um að veita þjónustu eða selja ferðir eða búa til matvæli. Þetta er það sem þetta snýst um. Er eðlilegt að Alþingi og stjórnvöld mæti atvinnulífinu á svona tímum? Auðvitað er það eðlilegt,“ sagði hún.
Frétt þessi birtist í Kjarnanum.