Skólasálfræðingar færðir inn í skólana

Meirihlutinn í borgarstjórn tekur ekki afstöðu til þess hvort færa eigi skólasálfræðinga inn í skólana og frá þjónustumiðstöðvum utan þeirra. Tillaga Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins þess efnis á borgarstjórnarfundi á þriðjudaginn var ekki afgreidd en send í sérstakan stýrhóp til nánari skoðunar sem Kolbrún telur hættu á að það muni „svæfa“ málið aftur en Kolbrún lagði fram tillöguna fyrst 2019.

Kolbrún sem starfaði sem skólasálfræðingur í áratug í Áslandsskóla mun í þættinum 21 á Hringbraut í kvöld benda á að metfjöldi, eða 837 börn í Reykjavík bíði nú ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu og þá helst eftir þjónustu skólasálfræðinga. Hún telur að með því að staðsetja skólasálfræðinga inn í skólunum frekar en á þjónustumiðstöðvum verði vinnan skilvirkari, vinnsluhraði meiri og tengsl sálfræðinganna meiri við skólasamfélagið.

Ákall kom frá skólastjórnendum í fyrra í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkur um grunnskólana. „Skólasálfræðingar þurfa að vera hluti af starfsliði skólans,“ segir Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla og fulltrúi skólastjórnenda í skóla og frístundaráði. Hann bendir á að í dag sé sálfræðiþjónustan sótt til velferðarsviðs og langmest sé greiningum sinnt s.s. vegna ADHD og þroskaraskana.

„Fáir gera sér grein fyrir að aðkoma skólasálfræðinga er að litlu leyti samtal eða bein tenging við nemendur og það sem beinlínis er að gerast í skólanum sjálfum.“

Margt getur komið upp sem brýnt er að bregðast strax við og í skólanum sjálfum, s.s. áföll sem börn hafa orðið fyrir, einelti og fleira. „Þá þarf skólasálfræðingurinn að vera með opnar dyr og til staðar,“ segir Kolbrún sem segist sem skólasálfræðingur hafa tekið á mjög mörgu sem kom upp í skólasamfélaginu áður en vandinn magnaðist.

„Allir í skólanum vissu hvar ég var og greiðlega hægt að koma til mín með alls konar mál og ég gat líka frætt börnin um margt sem varðaði líðan þeirra“.

Kolbrún bendir á að í mörg ár hafi enginn verið til taks inni í skólunum í Reykjavík til að taka með skjótum hætti á félagslegum og sálfræðilegum vanda sem kemur upp. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs segir þetta kalla á ráðningu fleiri sálfræðinga í 44 grunnskóla borgarinnar.

„Það eru tæplega 30 sálfræðingar starfandi í skólaþjónustu núna sem sinna líka 80 leikskólum borgarinnar svo þetta myndi kalla á fjölgun sálfræðinga sem yrði kostnaðarsamt. Við útilokum þó ekki að þetta sé góð tillaga enda erum við að vinna að því að styrkja stuðningsnet í kringum börn og þjónusta sálfræðinga er þar mikilvægur hluti. Því er henni vísað í stýrihóp sem er að skoða hvernig auka má samstarf Skóla og fristundasviðs og velferðarsvið borgarinnar. Við viljum að þjónusta við börn og fjölskyldur sé heildræn og veitt sem mest á vettvangi barnanna þar með talið í skólum“

segir Heiða.

Frétt þessi birtist í fréttablaðinu.

Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins

Deila