Þar beit verðtryggingin Bjarna

Þar beit verðtryggingin Bjarna

Það er margt athyglisvert í skýrslu fjármálaráðherra um Íbúðalánasjóð, sem nú heitir ÍL-sjóður. Kannski ekki síst það hvað hinum svokölluðu sérfræðingum okkar, hafa í gegnum árin, verið svakalega mislagðar hendur.

Dæmin eru mýmörg; auk Íbúðalánasjóðs má náttúrulega ekki gleyma hruninu, þar sem kom berlega í ljós að keisarinn var ekki í neinum fötum.

Samt eigum við að treysta „sérfræðingunum“ aftur og aftur, alveg sama hvað það kostar heimili landsins eins og t.d. í verðbólgunni sem geisar núna, þar sem ALLAR leiðir sem farnar eru til að berjast við hana, eru verri en verðbólgan sjálf.

Ég vil alltaf skoða þessi mál út frá heimilunum í landinu og þess vegna velti ég fyrir mér stöðu og hagsmunum heimilanna sem eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð verði hann leystur upp.

Ég tel reyndar hið besta mál að hann verði leystur upp. Þetta virðist hafa verið afskaplega illa rekin stofnun um langa hríð og ekki hafa neytendur notið góðs af því á nokkurn hátt að vera með sín viðskipti hjá ríkinu. Ef eitthvað þá hafa skilyrði Íbúðalánasjóðs, ekki hvað síst hvað varða uppgreiðslugjöld án nokkurra takmarkana, fest neytendur í gildru óhagstæðra lána sem þeir hafa ekki getað losnað undan, nema þá með miklum aukakostnaði sem engan veginn er hægt að réttlæta.

En verði þessi stofnun leyst upp er samt ekki sama hvernig það er gert og þar sem ég gat ekki tekið þátt í umræðum í þingsal vegna starfa í kjördæminu, langar mig að nota þennan vettvang til að nefna nokkra þætti sem hafa komið upp í huga minn er varða hagsmuni neytenda eða þeirra heimila sem enn eru með lán hjá Íbúðalánasjóði í þeirri von að fjármálaráðherra taki tillit til þeirra.

 

Verða hagsmunir þeirra sem skulda húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði varðir?

Það skiptir öllu máli að hagsmunir þeirra sem skulda húsnæðislán hjá Íbúðalánasjóði verði varðir. Væntanlega verða lánasöfnin seld, en spurningin er hvernig það verði gert. Sporin hræða og sú skelfing sem gerðist þegar lánasöfn sparisjóðanna og Frjálsa fjárfestingabankans voru sett í umsjón sérstaks félags sem kallað var Drómi, er okkur mörgum enn fersk í minni. Það má alls ekki endurtaka mistök fyrrverandi fjármálaráðherra og búa til Dróma #2.

Það er því full ástæða til að spyrja fjármálaráðherra hvernig hagmunir og réttindi lántakenda hjá Íbúðalánasjóði verði tryggð og hvort að ráðherra sé tilbúinn til að ábyrgjast að þeir muni engu glata af réttindum sínum, verði lán þeirra seld öðrum kröfuhöfum.

 

Íslandslánin ógurlegu

Það er kaldhæðnislegt að ríkið hafi á sínum tíma tekið Íslandslán og sé núna loksins að átta sig á því hversu ómöguleg þau eru. Og hvað gerir ríkið þá? Það reynir að koma sér undan því að standa við gerða samninga.

Ríkið hefur hins vegar aldrei sýnt þeim neytendum sem tóku þessi sömu lán nokkurn skilning þegar þeir kvörtuðu yfir ósanngirni og óbilgirni Íbúðalánasjóðs í að krefja neytendur um greiðslu væntanlegs framtíðarhagnaðar, í formi uppgreiðslugjalds.

Hér verður ekki lagt mat á réttmæti hugmynda fjármálaráðherra um að gera upp skuldir sjóðsins miðað við núverandi stöðu þeirra, en komast hjá því að greiða kröfuhöfum Íbúðalánsjóðs bætur fyrir framtíðarvaxtatap, sem í daglegu tali kallast uppgreiðslugjöld. Ég læt öðrum þá umræðu eftir.

Hitt er ljóst að þessi afstaða fjármálaráðherra samræmist i engu orðræðunni um að samningar skuli standa, en gangi áætlanir fjármálaráðherra eftir hlýtur sú spurning að vakna hvort það sama muni ekki gilda um þá neytendur sem enn skulda Íbúðalánasjóði húsnæðislán með þessum íþyngjandi skilyrðum?

Það er staðreynd að skilyrðin um uppgreiðslugjald eru verulega íþyngjandi fyrir neytendur og algjörlega úr takti við nútíma bankaviðskipti. Í raun má alveg halda því fram að þau teljist til óréttmætra skilmála í samningi, þar sem þau eru algjörlega án nokkurra takamarkana. Þannig eru dæmi um að Íbúðalánasjóður hafi krafist hartnær 20% af eftirstöðvum lánsins í uppgreiðslugjald.

Einnig má færa sterk rök fyrir því að það séu órjúfanleg tengsl á milli uppgreiðslugjalda í samningum og Íbúðalánasjóðs og að þegar Íbúðalánsjóður sé ekki lengur til, og lánin seld öðrum, falli þessi ákvæði sjálfkrafa niður, enda er Íbúðalánasjóður eina lánastofnunin sem hefur ótakmörkuð uppgreiðslugjöld í sínum samningum með þeim hætti sem um ræðir. Þessi ákvæði ætti því að fella á brott hjá neytendum hvort sem ráðherra tekst að komast undan þeim fyrir hönd ríkisins eða ekki.

Þó bæði fjármálaráðherra og seðlabankastjóri bendi fólki ítrekað á að það geti skuldbreytt lánum ef á þarf að halda, þá eiga viðskiptavinir Íbúðalánasjóðs litla sem enga möguleika á því, vegna þeirra svívirðilegu uppgreiðslugjalda sem fjármálaráðherra er nú að reka sig á fyrir ríkissjóð. Það er því bæði nauðsynlegt og rétt að nýta tækifærið til að létta af þeim þessum íþyngjandi skilmálum um leið og Íbúðalánasjóður er leystur upp eins og nú stefnir í.

En hvort sem fjármálaráðherra tekst að komast unda skilmálum samninganna eða ekki, má segja að þarna hafi verðtryggingin bitið Bjarna/ríkið á sama hátt og hún hefur bitið neytendur í áratugi. Já þegar ríkið fær sjálft að kenna á eitruðum kokteil Íslandslána blasir við að það er ekki sátt við að sitja undir skilmálum sem það ætlar öðrum að hlíta.

Það eitt og sér er athyglivert og segir sína sögu um varnarleysi neytenda í gegnum árin.

 

Það er leyfilegt að breyta samningum til hagsbóta fyrir neytendur

Ég vil benda fjármálaráðherra, sem yfirleitt (nema núna) er mjög umhugað um „samningafrelsi“ að það er leyfilegt að breyta samningum eftir undirritun til hagsbóta fyrir neytendur t.d. þegar um óréttmæta skilmála er að ræða.

Uppgreiðslugjöld Íbúðalánasjóðs flokkast klárlega til óréttmætra skilmála og þegar annar aðili samningsins, Íbúðalánasjóður verður hvort eð er ekki lengur til, er kjörið tækifæri til að losa neytendur frá þessum skelfilegu skilmálum.

Verði lánasöfn Íbúðalánasjóðs seld, eins og ég tel líklegt, þarf því að gæta að þessu í samningum við kröfuhafa.

Ég vil því beina því til ráðherra að beita sér fyrir því verði lánasöfnin seld að þessir skilmálar um uppgreiðslugjöld verði felldir brott, eða a.m.k. sett 1-2% hámark á þá eins og tíðkaðist hjá öllum öðrum lánveitendum sem veittu lán með skilmálum um uppgreiðslugjöld á sínum tíma og þess gætt að þannig sé gengið frá málum að niðurfelling þessa ákvæðis sé algjörlega ljós og komi hvorki í bakið á neytendum né kröfuhöfunum.

Það er a.m.k. ljóst að það lítur mjög einkennilega út ef ríkið reynir að koma sér undan uppgreiðslugjaldi gagnvart sínum kröfuhöfum án þess að tryggja að það sama gildi um neytendur gagnvart þeirra kröfuhöfum. Þá fyrst væri sjálfsköpuðum uppgreiðsluvanda sjóðsins velt yfir á saklausa neytendur af fullum þunga, og það má alls ekki gerast.

 

Íbúðalánasjóður er EKKI samfélagsbanki

Að lokum, af gefnu tilefni vegna orðræðu sem hefur heyrst frá andstæðingum hugmynda um samfélagsbanka: Íbúðalánasjóður er ekki og hefur aldrei verið banki! Hvorki samfélags- né annars. Þau sem vísa til hrakfallasögu Íbúðalánasjóðs sem vítis til að varast í því sambandi, tala því annað hvort gegn betri vitund eða af fullkominni vanþekkingu á eðli bankastarfsemi.

Íbúðalánasjóður er einfaldlega klúður misviturra stjórnmálamanna sem núna þurfa að taka á sig ábyrgðina sem því fylgir, án þess að velta vandanum yfir neytendur, eins og þeir hafa hingað til gert.

 

Ásthildur Lóa Þórsdóttir

 

Þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna

Deila