Tvö frumvörp um strandveiðar

Inga Sæland hefur mælt fyrir tveimur frumvörpum um strandveiðar.  Annars vegar um niðurfellingu strandveiðigjalds og hins vegar um breytta tilhögun strandveiða

Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um Fiskistofu þess efnis að við útgáfu strandveiðileyfis verði ekki lengur innheimt gjald kr 50.000. Gjaldið var sett á vorið 2010 og átti að standa straum á óvæntum kostnaði hafna við að þjónusta hundruð strandveiðibáta.  Kostnaður þessi er fyrir löngu orðinn fyrirséður og hafnir hafa tekjur af strandveiðibátum sem og öðrum útgerðarflokkum í formi hafnargjalda og ýmissa þjónustugjalda.

Það er því löngu orðið tímabært að aflétta þessari gjaldtöku sem stenst enga skoðun hvað jafnræði snertir.

LS fagnar framkomnu frumvarpi og vonar að það staldri ekki lengi við í atvinnuveganefnd og fái greiða leið í gegnum þingið.

Úr greinargerð sem fylgir frumvarpinu:

„Strandveiðigjaldið svokallaða er sértækur skattur sem lagður er á einn útgerðarflokk umfram aðra.  Engin sambærileg gjöld eru lögð á skip sem stunda aðrar veiðar en strandveiðar.  Þetta felur í sér ójafnræði í ljósi þess að eigendur strandveiðibáta greiða lögbundin hafnargjöld eins og aðrir.  Því er með þessu frumvarpi lagt til að ákvæði um strandveiðigjaldið í lögum Fiskistofu verð fellt niður.“

Í frumvarpinu er kveðið á um að úr lögum um stjórn fiskveiða verði fellt brott ákvæði um að óheimilt sé að stunda strandveiðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum og að ráðherra geti með reglugerð bannað strandveiðar á almennum frídögum.  Að öðru leyti er gert ráð fyrir sama fyrirkomulagi við veiðarnar.

Með breytingunni mun skapast „svigrúm til betri nýtingar á veiðidögum og með því aukin aflavon.  Þetta mundi svo auka líkur á því að strandveiðiflotinn nái að fullnýta aflaheimildir sínar þjóðfélaginu til hagsbóta“, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.

Deila