Umræða um sjálfsvíg

Sjálfsvíg er ósegjanlegur harmleikur sem hefur langtímaáhrif á fjölskyldu og ástvini þess sem sviptir sig lífi. Eftir sitja aðstandendur harmi slegnir með brennandi spurningar sem oftast fást engin svör við. Lífið hefur umturnast og langur tími líður þar til fótfestu er náð, sem ekki er sjálfgefið að öllum takist.

Sjálfsvíg er meðal algengustu dánarorsaka í aldurshópnum 15-19 ára í heiminum og á það einnig við hér á landi. Orsakir þess að einhver tekur svo afdrifaríka ákvörðun að taka líf sitt eru flóknar og margslungnar. Segja má þó fyrir víst að eitthvað í lífi þess sem fremur sjálfsvíg hafi orðið honum verulega andsnúið og ofviða. Tengsl sjálfsvígs við kvíða og þunglyndi hefur verið staðfest. Fjölmargir aðrir þættir spila oft hlutverk s.s. óhófleg áfengis- og vímuefnaneysla.

Verkefni stjórnvalda er að tryggja gott aðgengi að sálfræði- og geðþjónustu fyrir alla. Sjálfsvíg geta átt sér stað í öllum fjölskyldum og þjóðfélagsstigum en áhætta er meiri meðal þeirra sem búa við verri félags- og efnahagsstöðu heldur en hjá öðrum hópum í samfélaginu. Flokkur fólksins á Alþingi og í borgarstjórn hefur barist fyrir bættri stöðu fátæks fólks þ.m.t. bætt aðgengi að fagþjónustu. Í borgarstjórn hefur Flokkur fólksins ítrekað rætt mikilvægi styttingu biðlista skólabarna til sálfræðinga og lagt í því sambandi fram tillögur til úrbóta. Margir fátækir foreldrar hafa ekki tök á að kaupa sértæka fagþjónustu fyrir börn sín frá einkaaðilum, jafnvel þótt niðurgreiðslur komi til. Bið eftir þjónustu sálfræðinga á heilsugæslu er einnig talsverð. 

Mikið hefur áunnist í forvarnarmálum undanfarin ár í þessum viðkvæma málaflokki en betur má ef duga skal. Umræða um sjálfsvíg hefur opnast síðustu árin en áður var hún tabú. Nú hefur í það minnsta skapast vettvangur til að fræða og ræða m.a. um áhættuþætti og viðvörunarbjöllur.

Fræðsla í einhverri mynd er líklega þekktasta form forvarna og skilar hún bestum árangri ef beitt snemma og markvisst.

Þegar aðdragandi sjálfsvígs og sjálfsvígstilrauna er krufinn kemur í mörgum tilvikum í ljós að viðkomandi hafði um nokkurn tíma sýnt með hegðun sinni og viðmóti ýmis merki alvarlegrar vanlíðunar. Engu að síður kemur sjálfsvíg aðstandendum oftast í opna skjöldu, eins og flóðbylgja sem engu eirir. Þetta á við um bæði börn og fullorðna. Stundum hafði sá sem fallinn er fyrir eigin hendi sýnt lengi mikla vanlíðan en hefur, rétt fyrir sjálfsvígið, sýnst líða ögn betur. Hin jákvæða breyting hefur þá jafnvel slegið ryki í augu ástvina sem hafa kannski talið að nú færi að birta til. Þetta sýnir hvað þessi mál geta verið flókin og erfið viðureignar. Í öllu falli skiptir máli að vera vakandi fyrir viðvörunarbjöllum. Ef hegðun barns hefur breyst til muna bæði á heimili og í skóla og foreldrar skynja samhliða hegðunarbreytingunni djúpstæða depurð og leiða þá getur skipt sköpum að fá aðstoð fagaðila strax svo hægt sé að leggja mat á alvarleika málsins.

Nú hafa stjórnvöld ákveðið að niðurgreiða skuli sálfræðiþjónustu. Niðurgreiðslan er ekki hafin og óvíst hvenær það verður. Sálfræðiþjónusta er hluti af grunnheilbrigðisþjónustu. Líklegt er að með tilkomu niðurgreiðslna á sálfræðiþjónustu dragi úr geðlyfjakostnaði. Þegar niðurgreiðslukerfið er komið á verður hægt að skoða sálfræðiþjónustu sem raunhæfa forvörn gegn sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum. Eftir sem áður er aðgengi nú að geðdeildum Landspítala þyrnum stráð.

Í tengslum við tvær nýlegar skýrslur: Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi og Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi, lagði Flokkur fólksins í Reykjavík fram fyrirspurnir um stöðu nokkurra aðgerða sem nefndar eru í skýrslunum. Spurt var um innleiðingu þrepaskipts stuðnings í skólastarfi sem hluta af menntastefnu um skóla án aðgreiningar. Spurt var einnig um stöðu nýrrar Þekkingar- og þróunarmiðstöðvar áfalla-, ofbeldis- og sjálfsvígsforvarna sem nefnd er í skýrslunum og hvar úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar stæði. Einnig hvort hafin sé innleiðing á þróun aðgerða til að draga úr brotthvarfi úr námi.

Fyrirspurnunum var vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. Ekki er ósennilegt að ráðið telji sig ekki geta svarað þessum spurningum og segi ábyrgðina vera ríkisins. Í skýrslunum eru sveitarfélögin þó nefnd sem samábyrgðaraðilar. Skóla- og frístundaráð getur því bæði þrýst á og beitt sér fyrir að tillögurnar verði settar í framkvæmd.

Sjálfsvíg á sér stað í breiðum aldurshópi. Aðstandendur eru að sama skapi breiður aldurshópur. Börn í hópi aðstandenda þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi hafa ekki fengið næga athygli og umræðu. Líðan þeirra hlýtur oftast að vera átakanlega erfið. Aðstandendur þeirra sem framið hafa sjálfsvíg búa yfir mikilvægri reynslu og innsýn í málaflokkinn. Þátttaka þeirra í stefnumótun á þjónustu er mikilvæg. Við megum aldrei sofna á verðinum. Sjálfsvíg varðar okkur öll, hver sem við erum og hvar sem við erum stödd í lífinu.

Deila