Nú um helgina heldur VG landsfund sinn. Tæplega eyða þau löngum tíma í málefnavinnu því sagan kennir okkur að þessi flokkur á Íslandsmet í að segja eitt í sínum stefnumálum en gera svo allt annað þegar á reynir og flokkurinn er kominn í ríkisstjórn. Þetta eru umskiptingar íslenskra stjórnmála.
Listi umskiptanna er langur. Þau ætluðu aldrei í stjórn með íhaldinu en hafa nú verið í slíkri í nær heilt kjötímabil. Þau segjast vera á móti veru okkar í NATO en styðja samt þjóðaröryggisstefnu sem hnykkir einmitt á Íslandi í NATO með afgerandi hætti. Síðan má nefna ESB-umsóknina og ICESAVE þar sem þessi meinti vinstriflokkur vildi hiklaust leggja drápsklyfjar á alþýðu þessa lands. Svo má rifja upp varðstöðu VG um fjármálaöflin og verk þeirra við að senda þúsundir heimila út á gaddinn í kjölfar hrunsins 2008. Já, VG hafa oft valdið vonbrigðum og þau eru löngu búin að rústa sínum trúverðugleika. Mestu vonbrigðin eru þó vegna orða Katrínar Jakobsdóttur 13. september 2017 í umræðum um stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra Bjarna Benediktssonar. Orð sem féllu skömmu áður en hún settist sjálf í stól forsætisráðherrans. Hér er tilvitnun úr ræðunni sem finna má á vef Alþingis:
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Núverandi áætlanir þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr gera ráð fyrir því að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör.“
Ég man vel þegar ég hlýddi á ræðuna og fylltist von sem síðar breyttist í djúp vonbrigði. Undir ríkisstjórn Katrínar hefur ójöfnuðurinn og ranglætið vaxið stöðugt hjá þeim tekjulægstu. Raðirnar lengjast sífellt við hjálparstofnanir sem gefa fátæku fólki mat.
Enn bíður fátækt fólk eftir réttlætinu og nú undir stjórnarforystu Katrínar Jakobsdóttur. Öryrkjar hafa dregist gífurlega aftur úr og eru nú með um 50.000 kr. lægri framfærslu á mánuði en lægstu atvinnuleysisbætur sem eru þó á hungurmörkum. Lægstu laun eru tæplega 100.000 kr. hærri á mánuði en fullar mánaðargreiðslur almannatrygginga. Fólk á lágmarkslaunum getur ekki tekið eðlilegan þátt í samfélaginu heldur einungis hokrað í fátækt sem er langt undir raunverulegri framfærsluþörf. Tvær þjóðir búa í landinu: Þeir sem allt eiga og hinir sem eiga ekkert.
Flokkur fólksins berst af öllu afli gegn allri þessari mismunun, óréttlæti og fátækt. Flokkur fólksins mun mylja niður múra fátæktar í ykkar umboði. Í Flokki fólksins er von og vilji og ykkar að ákveða hvort þið kjósið raunverulegar breytingar til batnaðar eða ekki.
Inga Sæland