Undir fölsku flaggi!

Aldraðir hafa lengi þurft að um­bera stjórn­mála­menn sem sigla und­ir fölsku flaggi. Fyr­ir kosn­ing­ar lofa fram­bjóðend­ur upp í erm­ina á sér í þeirri von að það muni skila aukn­um fjölda at­kvæða á kjör­dag. Svo kem­ur í ljós eft­ir kosn­ing­ar að aldrei stóð til að efna þessi stóru kosn­ingalof­orð. Allt í einu eru lof­orð gær­dags­ins orðin póli­tísk­ur ómögu­leiki og eldri borg­ur­um er sagt að vera sátt­ir með mylsn­una sem dett­ur af rík­is­stjórn­ar­borðinu.

Þrátt fyr­ir fög­ur fyr­ir­heit byrjaði rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar og VG kjör­tíma­bilið frá 2009 til 2013 á því að setja krónu á móti krónu-skerðing­ar á eldri borg­ara. Í kosn­inga­bar­átt­unni 2013 sendi formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins bréf til alls eldra fólks þar sem hann lofaði meðal ann­ars að af­nema kjara­skerðing­ar og tekju­teng­ingu hjá elli­líf­eyr­isþegum. All­ir stjórn­mála­flokk­ar hafa lofað því að leiðrétta kjaragliðnun­ina. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn und­ir stjórn Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar lagði sér­staka áherslu á þetta í kosn­inga­bar­átt­unni 2013. Efndu þeir þetta lof­orð þegar þeir komust til valda? Að sjálf­sögðu ekki.

Flokk­ur fólks­ins hef­ur lagt fram fjölda þing­mála sem snerta hags­muni eldra fólks. Þar má nefna m.a. þing­mál um af­nám skerðing­ar elli­líf­eyr­is vegna launa­tekna, 100.000 kr. frí­tekju­mark vegna líf­eyristekna, þing­mál um bú­setu­ör­yggi í dval­ar- og hjúkr­un­ar­rým­um og af­nám vasa­pen­inga­fyr­ir­komu­lags­ins ill­ræmda, þing­mál um aukið lýðræði og gagn­sæi í líf­eyr­is­sjóðum og frum­varp um að koma í veg fyr­ir vax­andi kjaragliðnun með því að láta bæt­ur al­manna­trygg­inga hækka í sam­ræmi við launa­vísi­tölu. Allt eru þetta sann­girn­is- og rétt­læt­is­mál, mál sem aðrir flokk­ar hafa sí­fellt lofað að leggja fram en ekki staðið við. Hvernig má það vera að mann­vonska gagn­vart þess­um þjóðfé­lags­hópi sé eins grímu­laus og raun ber vitni? Svarið er, þeim er sama! Verk­in sem þeir vinna segja meira en nokk­ur orð.

Eng­inn stjórn­mála­flokk­ur hef­ur lagt fram fleiri þing­mál tengd mál­efn­um eldra fólks en Flokk­ur fólks­ins. Þrátt fyr­ir að vera í stjórn­ar­and­stöðu hef­ur Flokk­ur fólks­ins náð því fram að hætt hef­ur verið að telja styrki til tækja­kaupa, lyfja­kaupa og bens­ínstyrki til tekna, með til­heyr­andi skött­um og skerðing­um. Þessi breyt­ing spar­ar 6.000 eldri borg­ur­um og ör­yrkj­um að meðaltali um 120.000 kr. á ári. Flokk­ur fólks­ins vann dóms­mál fyr­ir hönd eldra fólks, þar sem Lands­rétt­ur komst að þeirri niður­stöðu að ríkið hefði brotið gegn því með því að skerða greiðslur með aft­ur­virkri og íþyngj­andi lög­gjöf. Niðurstaðan í mál­inu varð þess vald­andi að ríkið þurfti að greiða 29.000 eldri borg­ur­um um sjö millj­arða króna. Á síðasta þing­fundi kjör­tíma­bils­ins 2021 var til­laga Flokks fólks­ins um að stofna embætti hags­muna­full­trúa aldraðra samþykkt.

Fólkið fyrst, svo allt hitt!

Deila