Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna hefur tvívegis selt hlut ríkisins í Íslandsbanka undir markaðsverði og það liggur fyrir að lög voru brotin í síðara söluferlinu. Þrátt fyrir það hefur ríkisstjórnin lagt ofuráherslu á að koma gullgæsinni, og milljörðunum sem hún verpir árlega, til vina sinna í fjármálaelítunni. Íslenskur almenningur skal sko ekki fá að njóta ávaxtanna af eigum sínum þegar vel gengur heldur má hann taka á sig tapið þegar illa gengur eins og dæmin sanna.
Ég tel það algjörlega óforsvaranlegt á þessum tímapunkti að ráðast í sölu á Íslandsbanka. Mikill meirihluti samfélagsins hefur margsinnis lýst yfir andstöðu sinni við að eftirstandandi hlutur ríkisins verði seldur. Salan á 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka, með hlutafjárútboði, sumarið 2021, fór fram þannig að bréfin voru seld á hrakvirði, og aðeins fáeinum dögum síðar hafði verð hlutabréfanna hækkað um tugi prósenta. Salan á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars 2022 olli gríðarlegri reiði í samfélaginu og leiddi af sér rannsóknir sem allar sýndu fram á alvarlega annmarka á söluferlinu. Einn sá alvarlegasti, að þáverandi fjármálaráðherra hafði selt félagi föður síns hlut í bankanum. Auk þess var söluferlið allt mjög á reiki og einhverjir starfsmenn Íslandsbanka, sem höfðu umsjón með því, keyptu sjálfir hlutabréf í bankanum í þessu lokaða tilboðsferli fyrir útvalda.
Sala Íslandsbanka er hreint og klárt arðrán á samfélaginu í heild sinni. Íslandsbanki hefur skilað gríðarlegum hagnaði undanfarin ár og greitt milljarða í arð til ríkisins. Það er með öllu ómögulegt fyrir nokkurn einstakling að sjá skynsemina í því að fórna reglulegum arðgreiðslum fyrir skammtímaágóða af væntanlegri sölu. Þá er lægð á hlutabréfamörkuðum og markaðsverð á hlutabréfum Íslandsbanka hefur lækkað verulega það sem af er ári. En ríkisstjórnin er svo upptekin af því að losa ríkið undan þeirri „miklu áhættu“ sem fylgir því að eiga hlutabréf í fyrirtæki sem hefur skilað tuga milljarða króna hagnaði á hverju einasta ári frá hruni að keyra skal söluna áfram sama hvað tautar og raular. Þannig skal selja bankann á versta tíma svo að við verðum ekki fyrir því óláni að fá frekari arðgreiðslur.
Við erum löngu komin með upp í kok af því hvernig eignum okkar er stolið um hábjartan dag. Við erum nógu góð til að taka á okkur allan taprekstur og snúa honum til betri vegar síðan skal koma hagnaðinum í fjárhirslur peningaaflanna.
Flokkur fólksins krefst þess að frumvarpinu um sölu á eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka verði vísað frá án tafar.