Veiðar á langreyðum

„Ætlar rík­is­stjórn­in á ný að gefa út ný veiðileyfi og kvóta til veiða á langreyðum í lög­sögu Íslands?“ spurði Inga Sæ­land, formaður Flokks fólks­ins, á Alþingi í dag og beindi fyr­ir­spurn sinni til Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra.

Inga benti á að árið 2018 hafi verið síðasta árið af fimm ára tíma­bili þar sem kvót­ar til veiða á langreyðum hefðu verið gefn­ir út af stjórn­völd­um. „Ef halda á áfram veiðunum úr þess­um hval­veiðistofni á kom­andi sumri verður rík­is­stjórn­in að gefa út ný veiðileyfi og kvóta vart seinna en nú í sum­ar­byrj­un,“ sagði Inga.

Hún vitnaði í skýrslu Hag­fræðistofn­un­ar Há­skóla Íslands um þjóðhags­leg áhrif hval­veiða og sagði að þar væri niðurstaðan meðal ann­ars sú að hval­veiðar skaði ekki ís­lenskt efna­hags­líf. 

Katrín sagði að ljóst væri að flokk­arn­ir í rík­is­stjórn, VG, Sjálf­stæðis­flokk­ur og Fram­sókn­ar­flokk­ur, hafi ólíka sýn á hval­veiðar og um þær sé ekki fjallað sér­stak­lega í stjórn­arsátt­mála.

Hún sagði að skýrsla Hag­fræðistofn­un­ar Há­skóla Íslands hefði verið gagn­rýnd og þurfi að fara yfir hana og þær for­send­ur sem séu fyr­ir hendi hvað varði stofn­stærð stofn­anna, efna­hags­leg áhrif og hvort talið sé að skýrsl­an sé full­nægj­andi.

„Og af því að þingmaður spyr hvort búið sé að taka þessa ákvörðun get ég sagt þing­manni að sú ákvörðun hef­ur ekki verið tek­in, hún þarf að byggj­ast á þess­um for­send­um,“ sagði for­sæt­is­ráðherra.

Þessi frétt birtist á www.mbl.is

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila