Frumvarp mitt um bann við blóðmerahaldi liggur nú fyrir atvinnuveganefnd Alþingis. Umsagnarfresturinn rann út 17. janúar. Alls bárust 137 umsagnir, nánast fordæmalaus fjöldi umsagna. Enn fremur bárust 236 umsagnir til Umhverfisstofnunar vegna starfsleyfis Ísteka, sem framleiðir vöru úr blóði fylfullra mera. Flestar þessara umsagna eiga heima hjá atvinnuveganefnd, miðað við þær upplýsingar sem ég hef frá Umhverfisstofnun, enda fjalla þær um blóðmerahaldið sjálft. Ljóst er að atvinnuveganefndar bíður ærið verkefni ef málið á að hljóta afgreiðslu fyrir þinglok. Til samanburðar bárust 108 umsagnir um fjárlagafrumvarpið um síðustu jól.
Málið er risavaxið, en svo einkennilegt sem það er þá hefur málið aðeins hlotið efnislega umfjöllun fyrir atvinnuveganefnd einu sinni. Það var ekki á dagskrá nefndarinnar í gær og það verður ekki á dagskrá nefndarinnar á morgun. Nauðsynlegt er að funda um málið í atvinnuveganefnd sem fyrst og að því verði fylgt eftir af festu. Brýnt er að nefndin ræði við umsagnaraðila og fari yfir umsagnir svo að tryggja megi að málið hljóti vandaða afgreiðslu úr nefnd. Til viðmiðunar fundaði fjárlaganefnd 16 sinnum um fjárlagafrumvarpið áður en það frumvarp var að lokum samþykkt. Málið er talið hafa hlotið allt of knappa umræðu enda um mikilvægasta frumvarp Alþingis að ræða á ári hverju.
Fyrir atvinnuveganefnd liggja nú 10 mál, en það þykir með minna móti miðað við hefðbundið árferði, enda eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar enn að læra tökin í nýjum ráðuneytum. Málafjöldi getur því ekki réttlætt að þetta mikilvæga mál fái ekki umfjöllun fyrir atvinnuveganefnd.
Þingmenn verða að standast þrýsting hagsmunaaðila
Eflaust þrýsta hagsmunaaðilar á þingmenn stjórnarflokkanna og hvetja þá til að svæfa málið í nefnd. Ég ætla þó að vona að þingmenn taki ekki ákvörðun um þingmál út frá slíkum þrýstingi.
Það er sorglegt, ef það er virkilega svo, að ríkisstjórnarflokkarnir heykist á því að taka utan um mál sem þjóðin kallar eftir að fái þinglega meðferð. Ég skora á atvinnuveganefnd og formann nefndarinnar, Stefán Vagn Stefánsson, að taka utan um málið og koma því þannig inn að Alþingi Íslendinga geti fjallað um málið og greitt um það atkvæði.
Gleymum ekki þeim hryllingi sem heimildarmyndin Ísland land 5.000 blóðmera varpaði ljósi á. Þjóðin hefur kallað eftir aðgerðum. Yfir 6.000 manns skrifuðu undir ákall til stjórnvalda um að banna blóðmerahald.
Flokkur fólksins vill banna blóðmerahald, fyrst og fremst til að tryggja velferð dýra, en einnig til að vernda orðspor íslenskra hrossabænda og standa vörð um ásýnd Íslands á alþjóðavettvangi.
Bann við blóðmerahaldi er spurning um siðferði Íslendinga og mennsku. Látum aldrei um okkur spyrjast að við svæfum velferð dýra í nefnd!
Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.