Við erum ein stór fjölskylda

Alvarlegir atburðir á Vestfjörðum vekja erfiðar minningar. Snjóflóð skjóta okkur skelk í bringu. En við látum ekki hugfallast. Þegar eitthvert okkar lendir í erfiðleikum þá stöndum við saman öll sem eitt.  

            Ég hugsa um landið okkar og náttúruöflin. Þjóðina sem býr í þessu landi sem er svo auðugt, með náttúru sem getur verið svo miskunnarlaus. Hamfarir af hennar völdum geta skollið á með litlum eða engum fyrirvara.

Ég þakka Guði fyrir að ekki urðu slys á fólki og sendi ungu stúlkunni sem bjargaðist, fjölskyldu hennar og öðrum ættingjum og vinum hugheilar kærleikskveðjur. Sorgin er ólýsanleg þegar maður verður fyrir því áfalli að missa ástvini í heilgreipar náttúrunnar. Það fékk ég að reyna fyrir rétt um 30 árum í ofsaveðri og ólgusjó þegar hafið hrifsaði til sín elskulegan bróður minn.

Ég man þá eilífu vá sem vofði yfir okkur Ólafsfirðingum þegar við þurftum að ferðast um Múlaveginn gamla. Snjóflóð á veturna og skriðuföll í vatnsveðrum á sumrin. Í dag erum við laus við þá leið, þökk sé bættum samgöngum. 

Við lærðum af snjóflóðunum hræðilegu sem urðu fyrir um 25 árum síðan. Í kjölfar þeirra var farið í að efla snjóflóðavarnir. Án garðanna fyrir ofan Flateyri má leiða að því líkum að afleiðingar flóðanna nú hefðu orðið mun skelfilegri. Augljóst er að við verðum að halda áfram að bæta forvarnir okkar gegn snjóflóðum út um allt land. Við megum aldrei verða værukær og sofna á verðinum. Við skulum vera þakklát sérfræðingum okkar í ofanflóðavörnum, þakklát hetjunum  okkar í björgunarsveitunum. Þakklát fyrir  Landhelgisgæsluna, varðskipin okkar og þyrlurnar. Allt hefur þetta sannað mikilvægi sitt.

Reynsla okkar það sem af er þessum vetri sýnir að við verðum að halda vöku okkar gegn náttúruvám. Það þarf að styrkja innviði. Bæta raforkudreifingu, hafa rafstöðvar til reiðu ef rafmagn fer af, ekki síst fyrir heilbrigðsstofnanir og atvinnulífið.  Laga samgöngur og fjarskiptakerfi. Þegar nær fjórðungur er liðinn af 21. öldinni er ólíðandi að rafmagn fari af stórum svæðum, símakerfi verði óvirk, vegir ófærir dögum saman eins og nú á Vestfjörðum. Komum vegakerfi á sunnanverðum kjálkanum í lag.

Hugum að stofnbrautum í stærra samhengi. Víða eru helstu vegir landsins einfaldlega stórhættulegir í óveðrum. Hér má nefna Vesturlandsveg og Reykjanesbraut. Hvers vegna í ósköpunum er ekki farið í lagningu Sundabrautar? Hvað ef þarf að rýma höfuðborgarsvæðið vegna eldgosa? Flugvellir úti á landi verða að vera í lagi. Reykjavíkurflugvöllur er ómetanlegur sem öryggismannvirki.

Við viljum vitanlega búa við öryggi í okkar fallega landi. Við eigum að byggja landið og skila því og öllu samfélaginu til afkomenda okkar í betra ástandi heldur en þegar við tókum við því. Höldum áfram að draga lærdóm af reynslunni.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins

Deila