Viljum við tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld?

Í síðustu grein minni um málefni aldraðra í Fréttablaðinu fjallaði ég um þá eldri borgara sem eru dæmdir til fátæktar. Þeir sem hafa engar aðrar tekjur en þær sem þeir fá frá almannatryggingum. Í þessari grein vil ég fjalla um eldri borgara sem hafa aðrar tekjur, t.d. frá lífeyrissjóðum. Þetta fólk hefur unnið allt sitt líf og safnað sparifé í þeirri von um að það tryggi þeim áhyggjulaust ævikvöld. Svona einfalt er það því miður ekki, því stjórnmálamenn hafa lengi stundað það að ráðast á sparnað aldraðra í formi skerðinga.

Fólk er lögþvingað til að greiða í lífeyrissjóði hvort sem því líkar betur eða verr. Þeim er talin trú um að þessi peningur séu sparifé þess. Síðan kemur ríkið með krumluna og hrifsar bróðurpartinn til sín í formi skerðinga. Ríkið tekur 42 milljarða af eldri borgurum í formi skerðinga á hverju ári!

Nú er frumvarp Flokks fólksins í meðförum þingsins sem felur í sér hækkun á frítekjumarki lífeyristekna úr núverandi 25.000 kr. í 100.000 kr. á mánuði. Ef frumvarpið verður samþykkt stígum við eitt sanngirnisskref sem gefur lífeyrisþegum viðbótar 75.000 kr. á mánuði eða 900.000 kr. á ársgrundvelli. Því miður hafa ríkisstjórnaflokkarnir ekki sýnt þessu máli áhuga.

Þrátt fyrir að barátta Flokks fólksins gegn skerðingum hafi ekki fengið mikinn stuðning annarra stjórnmálaflokka, höfum við þó náð markverðum árangri í baráttunni. Eftir langar og strangar samningsviðræður í lok síðasta löggjafarþings, féllust allir flokkar á þingsályktunartillögu Flokks fólksins sem fól félags og barnamálaráðherra að sannreyna áður framkomna kostnaðargreiningu FEB (félag eldri borgara) um að samfélagið í heild sinni myndi hagnast á því að afnema skerðingar vegna launatekna aldraðra. Ráðherra hefur nú skipað óháðan starfshóp til að skera úr um málið. Ef starfshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að kostnaðargreiningin eigi við rök að styðjast, mun ríkisstjórnin leggja fram frumvarp á Alþingi fyrir 1. mars 2020 um afnám skerðinga vegna atvinnutekna aldraðra.

Þrátt fyrir þunga undiröldu og kröfu um aukið réttlæti og afnám skerðinga hefur fjórflokkurinn, og þeirra klofningsframboð, sýnt viljaleysi í þessum málum. Ef við ætlum að breyta kerfinu þá þurfum við að velja nýtt fólk til valdsins.

Sigurjón Arnórsson framkvæmdastjóri Flokks fólksins

Deila