„Eftir þrjá daga þá eru akkúrat níu mánuðir liðnir frá því að fyrsta COVID-tilfellið greindist á Íslandi. Nú höfum við verið að ganga í gegnum risa bylgju, þriðju bylgju faraldursins,“ sagði Inga sem rifjaði upp að mánuði áður en fyrsta tilfellið greindist hér á landi hafi hún staðið í ræðustól til að spyrja stjórnvöld hvernig þau hugðust bregðast við hugsanlegum heimsfaraldri sem þá var í uppsiglingu.
„Í rauninni hefur maður nú lítið fengið að heyra annað, a.m.k. á þessum fyrstu mánuðum en háð og spott og verið jafnvel tekin fyrir í Kastljósi allra landsmanna og sallað þar niður eins og hálfgerður bjáni. En ég ætla að segja það að ef ég hefði fengi að ráða, eins og einn ágætur mannvinur og góðvinur okkar allra, Kári Stefánsson, hafði sagt, þá værum við ekki að glíma hér við grímuskyldu, fjarlægðarmörk, lokunarstyrki og hundruð milljarða skuldasöfnun ríkissjóðs. Hér mundi kerfið og okkar innviðir ganga snurðulaust. Hér værum við ekki að einangra gamalt fólk og áhættuhópa. Hér værum við ekki að velta fyrir okkur hvort við þyrftum að loka skólum. Hér hefðum við einfaldlega viðurkennt sérstöðu okkar, 370.000 manna eyríki norður í ballarhafi. Við hefðum getað lokað landamærunum og algjörlega komið í veg fyrir það að þessi veira væri að ríða hér röftum um samfélagið sem raun ber vitni. Við hefðum getað valið sjálf þá umferð sem við hefðum talið nauðsynlega um landamærin.“
Inga minntist á að staðan núna væri betri en oft áður og smit hér á landi væru nú með þeim fæstu í Evrópu. Þó væri mjög stutt síðan hlutfall smita hér var með því hæsta í Evrópu.
„En nú er staðan önnur, virðulegi forseti, og ég bara spyr: Erum við að bíða eftir því núna að þetta lækki pínulítið þannig að við getum farið að hleypa veirunni inn aftur eða ætlum við að tryggja það hér og nú að við getum haldið saman heilög jól?“