Grímulaus vanræksla stjórnvalda á öldruðum

Ein al­var­leg­asta van­ræksla stjórn­valda gagn­vart eldri borg­ur­um er skort­ur á dval­ar- og hjúkr­un­ar­rým­um ásamt skorti á starfs­fólki. Nú bíða 1.722 aldraðir eft­ir hjálp við sitt hæfi. Einnig er löng bið eft­ir hinni svo­kölluðu hvíld­ar­inn­lögn og þarf ein­stak­ling­ur nán­ast að vera al­gjör­lega ósjálfbjarga til að eiga kost á slíku. Það eru s.s for­rétt­indi á efri árum að fá að nýta sér það sem á að vera sjálf­sögð þjón­ustu, virðing og mann­rétt­indi gagn­vart þeim sem komn­ir eru á efri ár. Það ætti að vera mark­mið lög­gjaf­ans hverju sinni að tryggja öldruðum áhyggju­laust ævikvöld en ekki þvert á móti eins og nú er, að baka þeim eins mikl­ar áhyggj­ur, kvíða og van­líðan og raun ber vitni.

Að hugsa sér að enn skuli vera tug­ir aldraðra liggj­andi í dýr­asta úrræði sem völ er á senni­lega í víðri ver­öld. Þar sem þau eru lát­in liggja inni á Land­spít­ala – há­skóla­sjúkra­húsi þrátt fyr­ir að meðferð þar sé lokið. Þetta er því­lík þjóðarskömm að ég á erfitt með að tala um þetta enda bú­inn að horfa upp á grát­andi kær­an ást­vin eiga að verða flutt­ur hreppa­flutn­ing­um langt frá fjöl­skyldu sinni, til að koma hon­um út af spít­al­an­um. Þetta er síðasta sort og ekki bjóðandi nein­um að þurfa að þola sem á að geta treyst á ást okk­ar og um­hyggju.

Það er óafsak­an­legt að ekki skuli vera búið að út­rýma hvers kon­ar mönn­un­ar­vanda í þjón­ustu við aldraða. Það er líka óafsak­an­legt að dval­ar­rými skuli vera nýtt til hjúkr­un­ar­rýma þannig að vax­andi skort­ur er á hvoru tveggja. SFV (sam­tök fyr­ir­tækja í vel­ferðarþjón­ustu) hafa ít­rekað gagn­rýnt þá stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar að ráðast í upp­bygg­ingu nýrra hjúkr­un­ar­heim­ila í stað þess að tryggja bet­ur rekstr­ar­grund­völl þeirra sem þegar eru fyr­ir í land­inu. Það er að sjálf­sögu óráðsía að ætla að laga vand­ann með fjölg­un hjúkr­un­ar­rýma ef fjár­magn er ekki til staðar til að reka þau. Ég skil ekki hvers vegna stjórn­völd­um hef­ur ekki tek­ist að byggja fleiri hjúkr­un­ar­heim­ili og tryggja rekstr­ar­grund­völl þeirra á sama tíma.

Eitt af þing­mál­um Flokks fólks­ins stytt­ir til muna bið eft­ir ör­uggri bú­setu á dval­ar- og hjúkr­un­ar­rým­um eft­ir að ein­stak­ling­ur hef­ur geng­ist und­ir færni- og heil­sum­at. Ef málið verður samþykkt ber stjórn­völd­um eðli máls­ins sam­kvæmt að fylgja lög­un­um. Að öðrum kosti gætu þau orðið skaðabóta­skyld gagn­vart þeim sem eiga rétt á úrræðinu og hafa orðið fyr­ir tjóni vegna meints lög­brots gegn þeim.

Það er okk­ar skylda að hugsa vel um aldraða og búa þannig um hnút­ana að þeir geti lifað mann­sæm­andi lífi síðustu ár, mánuði, vik­ur og daga æv­inn­ar. Við þurf­um rót­tæk­ar aðgerðir í þess­um mál­um, strax!

Sigurjón Arnórsson framkvæmdastjóri Flokks fólksins

Deila